*

föstudagur, 3. júlí 2020
Innlent 25. júlí 2018 19:19

Ljósmæður ná ekki 14% hækkun launa

Ljósmæður voru beðnar um að greina ekki frá upphæðinni sem forstjóri Landspítalans mun færa til í rekstri spítalans.

Höskuldur Marselíusarson
Forstjóri Landspítalans, sem sló á hnútinn i kjaradeilu ljósmæðra, vildi ekki að þær greindu frá þeirri upphæð sem hann lagði upp með að færi til þeirra ljósmæðra sem starfa hjá stofnuninni.
Haraldur Guðjónsson

 

Guðlaug María Sigurðardóttir, sem situr í samninganefnd ljósmæðra, segir að forstjóri Landspítalans hafi óskað eftir því að nefndin greindi ekki frá því upphæðinni sem sjúkrahúsið hyggist setja í að leysa ljósmæðradeiluna.

Auk þess fjármagns sem sjúkrahúsið hyggist færa til ljósmæðra og þess sem ríkið hefur þegar lofað mun kröfum ljósmæðra um að menntun þeirra og ábyrgð verði skoðuð með tilliti til sambærilegra stétta, verði skotið til gerðardóms. Það á að verða búið að klára það 1. september.

Fram hefur komið í fréttum að það hafi verið útspil forstjórans, Páls Matthíassonar, sem hafi liðkað fyrir lausn deilunnar að sögn formanns samninganefndar ljósmæðra, Katrínar Sifjar Sigurgeirsdóttur, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafa félagsmenn félags ljósmæðra samþykkt miðlunartillögu Ríkissáttasemjara til lausn á kjaradeilu félagsins við ríkið.

Ekki hægt að verða við beiðni um að greina ekki frá útspilinu

„Fyrst bað hann okkur um að skýra ekki frá því að útspilið kæmi frá Landspítalanum, en við sögðum að það væri ekki hægt, það þyrfti að segja frá því hvernig deilan hefði verið leyst. Við samþykktum að að við myndum ekki greina ekki frá upphæðinni, og það munum við standa við, heldur verður hún að koma frá forstjóra spítalans,“ segir Guðlaug María en hún segir ljósmæður hafa slegið mikið af kröfum sínum.

„Við lækkuðum okkur úr kröfu um 25% hækkun, fyrst í 17% og svo vorum við komin í kröfu um 14% en við erum ekki að fá 14% hækkun. Í miðlunartillögunni fólst að gamli samningurinn stæði óbreyttur með miðlægri 6,9% hækkun með töflubreytingu, auk 60 milljóna króna viðbótar til okkar á ári frá ráðherra og 6 milljóna úr 200 milljóna króna sjóð sem deilist hlutfallslega á milli BHM félaga.“

Vildu 170 milljónir árlega auk um 7% flatrar hækkunar

Guðlaug María segir að upphaflega hafi samninganefndin farið fram á að til viðbótar við næstum 7% launahækkunina sem hafi gengið jafnt yfir allar ljósmæður hafi félagið farið upphaflega fram á að 170 milljónir rynnu árlega til þeirra níu stofnana í landinu sem ljósmæður starfa fyrir.

„Þetta er flókið því þetta er tvöfalt kerfi, en þannig var að í samningnum sem við felldum í maí stóðu út af þessar 110 milljónir sem upp á vantaði á ári til að við gætum náð fram 14% flatri hækkun á allar ljósmæður,“ segir Guðrún María en bendir á að ætlunin með þessu viðbótarfjármagni hafi einmitt ekki verið flöt hækkun.

„Einhverjar hefðu getað fengið aðeins meira og aðrar aðeins minna, því við viljum hækka dagvinnukonur sem geta ekki lifað af laununum sínum. Við vildum hækka grunnlaunin svo að kona sem er kannski með 20 ára starfsreynslu og um 480 þúsund krónur í grunnlaun, væri ekki að fá útborgað undir 400 þúsund krónum á mánuði og geta ekki lifað af því.“

Ekki með stofnanasamning síðan 2008

Með viðbótarframlagi Landspítalans munu hinar áðurnefndu 66 milljónir á ári renna til þeirra átta stofnana sem eftir eru, en langflest af þeim 172 stöðugildum ljósmæðra sem eru á landinu, eða 97, eru við sjúkrahúsið.

„Það eru til dæmis sónarkonur og þær ljósmæður sem eru í áhættumæðravernd sem eru í dagvinnu, en á Landspítalanum eru að auki nokkrar sérfræðiljósmæður,“ bendir Guðlaug María á en hún segir að nú verði skoðað hvernig viðbótarfjármagninu verði deilt milli hinna stofnananna.

„Við fáum aðila á vegum hins opinbera til að þarfagreina stofnanirnar með okkur, sem er nauðsynlegt því að sumar þeirra ná ekki að ráða til sín starfsfólk því þær hafa verið svo lengi eftir á í stofnanasamningum. Til dæmis hefur ekki verið gerður stofnanasamningur við ljósmæður við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem ég starfa síðan árið 2008.“

Hér má lesa fleiri fréttir um málefni ljósmæðra:

Hér má lesa skoðanagreinar um málefni ljósmæðra: