Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Asíu í dag og hafa ekki verið lægri í tvö ár að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en hraðri lækkun á olíuverði og gulli er helst um kennt.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði í dag um 0,4% og hefur að sögn Bloomberg ekki verið lægri frá því um miðjan júlí árið 2006. Þá hefur vísitalan lækkað um 24% það sem af er þessu ári.

Það voru helst hrávöruframleiðendur sem leiddu lækkanir dagsins. Það kom þó sumum vel því stærsti dekkjaframleiðandi heims, Bridgestone hækkaði um 5,6% í Japan eftir að félagið tilkynnti að það myndi sjá fram á aukinn hagnað vegna lækkandi hrávörukostnaðar, en það þarf rúmlega 25 lítra af hráolíu til að búa til eitt dekk.

Þá hækkaði Nikkei vísitalan í Japan um 0,6% í dag og í Suður Kóreu hækkaði Kospi vísitalan um 1,4% eftir að samningar tókust á milli starfsmanna og stjórnenda bílaframleiðandans Hyundai sem urðu til þess að hætt var við verkfall starfsmanna. Þetta voru einu vísitölurnar sem hækkuðu í Asíu í dag.

Í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 1,1% eftir að tölur voru birtar sem benda til þess að hagvöxtur í landinu hafi verið neikvæður um 0,3% á öðrum ársfjórðungi ársins.

Í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 1,2%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 2% og í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1,3%.