Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag eftir að hafa sveiflast nokkuð. Hlutabréf lækkuðu strax í morgun, hækkuðu síðan undir hádegi og lækkuðu aftur eftir hádegi.

Reuters fréttastofan greinir frá því að nokkur óvissa ríki meðal fjárfesta um hvaða áhrif björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda kunna að hafa á fjármálamarkaði næstu misseri en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 1,9% í dag en vísitalan hækkaði um rúm 8% á föstudaginn var. Þá hafði hún um tíma í dag hækkað um 0,6%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,4%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,7% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,3%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,3% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 2%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,1%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,1% en í Osló stó OBX vísitalan í stað við lok markaða eftir að hafa verið lengi vel eina vísitalan sem hafði hækkað í dag.