Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,4% en hafði þó lækkað meira fyrr í dag eða um allt að 1%.

Eins og fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Credit Suisse lækkaði um 0,8%, Deutsche Bank lækkaði um 1,1% og Santander um 2%.

Breski bankinn Barclays rauk hins vegar upp seinni part dags eftir að bankinn staðfesti orðróm um að bankinn myndi auka hlutafé sitt  um allt að fjóra milljarða dali. Bankinn hækkaði um allt að 12,6% í dag en við lokun markaða hafði bankinn hækkað um 10%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,1%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,5% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,3%.

Á Norðurlöndunum hækkuðu hlutabréf þó í verði. Í Kaupmannahöfn hækkað OMXC vísitalan um 0,4%, í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,5% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,3%.