Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis segir að mat Moody‘s frá því fyrr í dag, þar sem lánshæfiseinkunn ríkissjóðs var breytt úr stöðugu í neikvæða, hafi jákvæða hlið þegar grannt er skoðað.

„Moody’s telur upp ýmsa jákvæða punkta, meðal annars að íslenska ríkið sé alveg tilbúið til að standa við bakið á bönkunum. Þetta er atriði sem gott er að fá skjalfest,” segir Ingólfur. „Menn geta vísað til þessa þegar fjármagn er sótt út og þótt orðspor greiningarfyrirtækja hafi beðið hnekki að undanförnu er það samt svo að Moody’s er virtur fagaðili og betri en flestir þeir greiningaraðilar erlendis sem hafa tjáð sig um stöðu mála á Íslandi upp á síðkastið. Þetta treystir því tvímælalaust stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja þegar fjármagn er sótt út.”

Getum tekist á við kólnun

Einnig var greint frá því í dag að matsfyrirtækið Standard & Poor’s teldi Ísland í hópi þriggja efstu ríkja sem sem viðkvæmust eru fyrir kólnun í hagkerfi heimsins á meðal átján nýmarkaðsríkja Evrópu, þar eð hagkerfi þeirra er svo háð erlendu fjármagnsflæði. Ingólfur kveðst telja það fjarri lagi að tilgreina Ísland með nýmarkaðsríkjum og sé hagkerfið hérlendis miklu mun þróaðra en í þeim sem úttektin tiltekur. „Það er hins vegar ljóst að við erum viðkvæm fyrir á ýmsum mörkuðum, t.d. lánamörkuðum og mörkuðum fyrir banka og fjármálastofnanir, enda höfum við fjárfest mikið í þeim og tekið mikið af erlendum lánum. Það er því eðlilegt að menn bendi á þann þátt. Íslensku bankarnir vega líka gríðarþungt í hagkerfinu hérlendis og væntanlega er S&P að vísa til þess einnig. En í raun stöndum við ágætlega og erum í sjálfu sér mun betur stödd til að takast á við kólnun heldur en mörg önnur ríki.”