Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag, þriðja daginn í röð en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ríkir óvissa meðal fjárfesta um hvort og þá hvenær og hvernig björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda verða samþykktar.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 0,7% og hefur nú lækkað um tæp 27% það sem af er ári.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 0,9%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 0,2% en í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan hins vegar um 4,3% eftir að tvær stærstu kauphallir landsins liðkuðu til í reglum sínum um ráðandi hluti í keyptum félögum.

Í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1,2% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 um 1,1%.