Hlutabréf í Evrópu hafa lækkað það sem af er degi og eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur lækkað um 0,6% í dag og eru hlutabréf því í takt við það sem gerist annars staðar í heiminum. Hlutabréf í Bandaríkjunum lækkuðu um 3% á föstudag og í Asíu lækkuðu hlutabréf um 2% í morgun.

Eins og fyrr segir hafa bankar og fjármálafyrirtæki lækkað nokkuð. Sem dæmi má nefna að svissneski bankinn UBS hefur lækkað um 6,6% eftir að fjölmiðlar greindu frá því að bankinn myndi tapa allt að 4 milljörðum franka á öðrum ársfjórðungi.

Þá halda flugfélög áfram að lækka. Lufthansa hefur lækkað um 2%, British Airways um 3% og Air France um 2,6%.

Í Lundúnum stendur FTSE 100 vísitalan í stað, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 0,3% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 0,25%.

Þá hefur CAC 40 vísitalan í París lækkað um 0,3% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1,1% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 0,4%. Mest er lækkunin þó í Stokkhólmi þar sem OMXS vísitalan hefur lækkað um rúm 2%.