Yfirvöld í Singapúr greindu frá því í morgun að gerður hafi verið loftferðasamningur við Ísland. Pétur K. Maack, flugmálastjóri, segir mjög jákvætt fyrir íslenska flugrekendur að fá þennan samning við svo stóra og virta flugþjóð.

„Það sem einkennir þennan samning er hversu opin hann er og víðtækur. Ég fagna því að svo opnir samningar séu gerðir. Ég tel að þeir muni gagnast íslenskum flugrekstri þegar til lengri tíma er litið.” Samningur sem þessi er nauðsynlegur til að íslenskir flugrekendur geti stundað flug til Singapúr á vélum með TF skráningu.

Þarna er um að ræða svokallaðan “open skies agreement (OSA)” sem heimilar flugfélögum sem skráð eru í löndunum tveim flug milli landanna og á út frá þeim.

Engar hömlur eru í samningnum um umfang, tíðni eða stærð flugvéla. Segir Pétur að samningurinn sé líka góður að því leyti að hann heimili íslenskum flugrekendum að fljúga til Singapúr frá þriðja ríki og hafi þá einnig heimild til millilendinga í Singapúr. Að öðru leyti eru í samningnum almennar hömlur er varðar svokölluð blautleigufyrirtæki og að ekki megi taka inn þriðja aðila sem ekki er skráður á Íslandi.

Loftferðasamningurinn við Ísland er einn af rúmlega 30 loftferðasamningum sem Singapúr hefur gert við önnur ríki. Þann 1. janúar 2009 nýttu 83 áætlunarflugfélög þjónustu á Changi Airport flugvellinum í Singapúr. Þessi félög eru með yfir 4.600 flug á viku til 190 borga í 60 löndum.

Ástríður Scheving Thorsteinsson, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, hafði veg og vanda af samningsgerðinni fyrir Íslandshönd.