Í morgun samþykkti ríkisstjórnin frumvarp færsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fellir úr gildi fyrra framkvæmdaleyfi og veitir nýtt framkvæmdaleyfi vegna lagningar 220 kv rafmagnslínu við Þeistareyki.

Lagning línunnar er forsenda fyrir framkvæmdum við iðnaðarsvæðið á Bakka á Húsavík, en þar er verið að reisa kísilmálmverksmiðju PCC. Viðskiptablaðið hefur fjallað um að framkvæmdirnar komust í uppnám í kjölfar stöðvunar línulagningarinnar.

Framkvæmdir stöðvuðust vegna úrskurðar

Í kjölfar þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi þann 19. ágúst tvo úrskurði sem stöðvuðu framkvæmdir vegna framkvæmdaleyfa fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 stöðvuðust framkvæmdirnar, en nú er ljóst að þær munu komast aftur af stað.

Voru úrskurðirnir til bráðabirgða á meðan nefndin fjallaði um kærur Landverndar vegna útgáfu framkvæmdaleyfanna.

Eina leiðin til að leysa deiluna

Ragnheiður Elín Árnadóttir Iðnaðarráðherra mælir fyrir frumvarpinu en hún segir við RÚV að allt hafi verið reynt til að leysa deiluna og þetta hafi verið eina leiðin.

Áskorun frá þremur sveitarfélögum á svæðinu frá í gær hafi vegið þungt, en þar var beinlínis óskað eftir aðkomu löggjafans.