Í fyrsta skipti í tíu ár íhuga Samtök breskra bankastofnana (BBA) að ráðast í uppstokkun á því hvernig LIBOR-vextir eru reiknaðir út á millibankamarkaði í London.

„Við erum með LIBOR-vextina í skoðun" hefur Bloomberg-fréttaveitan eftir Angelu Knight, forstjóra BAA. Hún neitaði hins vegar að ræða nánar í hverju breytingar gætu falist, en BBA mun tilkynna breytingarnar 30. maí næstkomandi.

BBA ákvarðar LIBOR-vexti með því að taka saman gögn og upplýsingar á hverjum degi hjá 16 bönkum um þau vaxtakjör sem þeir greiða fyrir lán í Bandaríkjadölum, sterlingspundum, evrum og átta öðrum gjaldmiðlum.

Samtökin eru undir vaxandi þrýstingi - einkum frá bandarískum fjármálafyrirtækjum - um að sýna fram á að LIBOR-vextirnir séu áreiðanlegt viðmið í kjölfar kvartana frá fjárfestum og markaðsaðilum.

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku er BBA að rannsaka ásakanir um að sumir bankar í Evrópu hafi gefið upp rangar upplýsingar um fjármögnunarkostnað sinn, sem hafi haft þau áhrif að brengla LIBOR-vextina.

Á það er bent í frétt Bloomberg að þann 7. apríl síðastliðinn hafi LIBOR-vextir til eins mánaðar í dölum verið 2,72%, en hins vegar greindi Seðlabanki Bandaríkjanna frá því að bankar hafi greitt 2,82% fyrir veðlán síðar þennan sama dag.

„Tölurnar sem bankarnir greindu BBA frá voru lygi", segir Tim Bond, sérfræðingur hjá Barclays Capital í London.

Hann segir að það hafi ekki verið fyrr en BBA tilkynnti að það hygðist rannsaka meint misferli bankanna sem þeir hafi byrjað að greina satt og rétt frá vaxtakjörum sínum.

Kostnaðurinn við að taka lán í dölum til þriggja mánaða ætti að vera 30 punktum hærri heldur en núverandi LIBOR-vextir, sagði í skýrslu bandaríska fjárfestingabankans Citigroup í nýliðnum mánuði.

Sérfræðingar segja að sumir bankar hafi vísvitandi vanmetið fjármögnunarkostnað sinn sökum ótta um að fjárfestar myndu telja það veikleikamerki af hálfu bankanna að þeir þyrftu að greiða hærri vexti.