Brúnin lyftist heldur á loðnusjómönnum í gær þegar fréttist af loðnu úti af Snæfellsnesi, sem að öllum líkindum er úr vestangöngu, en menn voru mikið til búnir að afskrifa að loðna kæmi að vestan á þessari vertíð.

,,Við erum hér norður af Öndverðarnesi, skammt frá landi, og búnir að kasta tvisvar. Við fengum lítið í fyrra kastinu en erum nú að dæla úr því síðara sem gefur sennilega um 300 tonn. Þetta er hrognaloðna sem á nokkra daga eftir áður en hún hrygnir. Hún er því mjög líklega úr vestangöngu því loðnan sem er í Faxaflóanum er öll lögst í hrygningu. Það er of snemmt að segja til um hversu mikil loðna er hér á ferðinni. Hér er eitthvað af síld líka og það ruglar mann svolítið,“ sagði Helgi Valdimarsson skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE um klukkan 18 í gær. Skipið var þá eitt á miðunum en von var á fleiri skipum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .