Jörðin Fell í Suðursveit ásamt austurströnd Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi var slegin hæstbjóðanda hjá sýslumanninum á Suðurlandi í gær. Söluferlið hefur staðið yfir í sex mánuði og á þessum úrslitadegi buðu einn landeigandi og sá sem átti næsthæsta boðið áður til skiptis þannig að kaupverðið hækkaði um 350 milljónir króna. Kemur þetta fram í Morgunblaðinu.

Uppboðið hjá sýslumanni var til slita á sameign. Áður hafði verið aflað matsgerðar sem sýndi að ekki væri fært að skipta jörðinni öðruvísi en með sölu.

Jörðin var slegin Fögrusölum ehf., sem er dótturfélag Thule Investments, fyrir 1.520 milljónir kr.

Ef uppboðið verður ekki afturkallað og ríkið neytir ekki forkaupsréttar á föstudag verður samið við Fögrusali um kaup á jörðinni. Þann dag þarf fyrirtækið að greiða fjórðung kaupverðs því til staðfestingar.