London Stock Exchange (LSE) hyggst setja á fót sérstakan markað þar sem óskráð fyrirtæki geta selt hlutabréf. Gangi þetta eftir yrði breska kauphöllin yrði sú fyrsta til að bjóða upp á slíkan markað. Um er að ræða hluta af áformum LSE til að laða til sín ört vaxandi tæknifyrirtæki í kjölfar Brexit, að því er kemur fram í frétt WSJ .

Til stendur að hægt verði að stunda viðskipti með hlutabréf óskráðra fyrirtækja á markaðnum einstaka daga á tilteknu tímabili. Hugmyndin er að félögin á þessum markaði þurfi ekki að lúta sömu upplýsingaskyldu og eftirliti eins og skráð félög.

Í skjali sem LSE sendi Breska viðskiptaháttaeftirlitinu (FCA) og fjármálaráðuneyti Bretlands segir að þessi nýi vettvangur myndi brúa bilið á milli viðskipta utan markaða og kauphallarviðskipta. Einnig myndi þetta fjölga valkostum fyrir fyrirtæki sem sækjast eftir fjármagni án verulegra skuldbindinga sem skráning á markað felur í sér.

Nasdaq rekur nokkra markaði í Bandaríkjunum fyrir hlutabréf óskráðra fyrirtækja en ólíkt fyrirhuguðum markaði LSE þá eru þeir ekki opnir fyrir flesta einstaklinga. Samkvæmt núgildandi reglugerð Bandaríska verðbréfaeftirlitsins (SEC) eru þessir markaðir einungis opnir fyrir viðurkennda fjárfesta sem uppfylla ákveðin skilyrði, þar á meðal að auðæfi viðkomandi séu yfir einni milljón dala eða að árstekjur fjárfestisins séu yfir 200 þúsund dalir.

Í umfjöllun WSJ segir að London hafi átt í erfiðleikum með að laða að ung vaxtarfyrirtæki. Tæknifyrirtæki velji yfirleitt að fara á markað í Bandaríkjunum eða Asíu. Þá hefur skráðum félögum hjá LSE fækkað nokkuð stöðugt síðastliðinn áratug, en þau voru um 2.700 árið 2010 og eru nú rétt yfir 2 þúsund talsins.