Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Lýð Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann eignarhaldsfélagsins Existu, og Sigurð Valtýsson, fyrrverandi forstjóra Existu, af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik og brot gegn hlutafélagalögum sem stjórnarmenn í Vátryggingafélagi Íslands. Þetta kemur fram á fréttavefnum Vísi.

Ákæran snerist að þremur atriðum. Í fyrsta lagi fimmtíu milljóna króna lán sem VÍS veitti Sigurði sjálfum í febrúar 2009 og var ítrekað framlengt og í öðru lagi tugmilljóna lán VÍS til Korks ehf., félags í eigu Lýðs og Ágústs bróður hans, sem var framlengt og hækkað sex sinnum. Í þriðja lagi var ákært fyrir umboðssvik þegar VÍS keypti 40 prósenta hlut í félaginu Reykjanesbyggð ehf. af Kristjáni Gunnari Ríkharðssyni, svila Sigurðar, fyrir 150 milljónir.

Lögregluaðgerðir á rannsóknarstigi voru mjög umfangsmiklar. Meðal annars voru fjórir menn handteknir vegna málsins og færðir til yfirheyrslu.