*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 19. júní 2014 09:00

Lyfjameðferð getur kostað 100 milljónir króna

Forstjóri Landspítalans segir að gætt sé hagkvæmni í lyfjainnkaupum. Hins vegar þurfi umræðu um ofurdýrar lyfjameðferðir.

Jón Hákon Halldórsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Lyfjakaup eru stór útgjaldaliður í rekstri Landspítalans eins og annarra sjúkrahúsa. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, segir það eilífa áskorun að tryggja aðgengi sjúklinga að bestu mögulegu lyfjum jafnframt því að hemja lyfjakostnað. Spítalinn leggur sérstaka áherslu á hagkvæmni í innkaupum, skilvirkt eftirlit og nána samvinnu klínískra sérfræðinga og þeirra er annast innkaup og dreifingu lyfja innan spítalans. „Í samvinnu okkar við Sjúkratryggingar varðandi svokölluð s-merkt lyf, sem eru þá sérhæfð mjög dýr lyf eins og við krabbameini, HIV, gigtsjúkdómum og öðru slíku, þá erum við að ná mjög góðum árangri í að halda niðri kostnaði. Við tökum aðeins inn ný lyf að mjög vel athuguðu máli þar sem settar hafa verið reglur um hverjir eigi að nota lyfin og svo framvegis,“ segir Páll. Önnur lönd geti lært af Íslandi í þeim efnum.

Það sé hins vegar annað mál, að í vaxandi mæli séu að koma inn ofurdýrar lyfjameðferðir við sjaldgæfumarfgengum sjúkdómum og að ríkið þurfi að mynda sér stefnu um það hvernig það ætlar að takast á við slík mál. „Hvar á að draga mörkin, eða á að draga mörkin? Þetta er ekki eitthvað sem Landspítalinn getur einn ákveðið eða Sjúkratryggingar. Það þarf þarna aðkomu stjórnvalda og almennings, umræðu sem er einnig byggð á siðfræðilegum grunni. Hvernig á að forgangsraða? Auðvitað þarf að ræða almennt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, en vandamálið um forgangsröðun kemur sérlega skýrt fram þegar kemur að ofurdýrri meðferð,“ segir Páll. Hann bendir á að það séu til lyf sem kosta yfir 100 milljónir á ári fyrirmeðhöndlun á einum einstaklingi og spítalinn hafi notað slík lyf enda hafi mannslíf verið í húfi. 

„Þegar ekki er búið að taka umræðuna og móta heildstæða stefnu, þá er afar erfitt að segja nei, ef ljóst er að viðkomandi lyf bjargar mannslífi – en það þarf að ræða þessi mál. Svo dæmi sé tekið; ef lyfjameðferð eins einstaklings kostar meira en að reka heilaskurðlækningar á Landspítala á ári, eigum við þá að leggja þá þjónustu niður á móti? Ef ekki, þá þarf að koma inn meira fjármagn, því það er ekki endalaust hægt einfaldlega að hagræða upp í aukinn kostnað. Það þarf að hugsa um forgangsröðun og þar getum við tekið okkar nágrannalönd til fyrirmyndar á ýmsan hátt. Og forgangsröðunin þarf að byggja á þremur hlutum. Í fyrsta lagi á kostnaði. Í öðru lagi þarf forgangsröðun að byggja á faglegum rökum, að þau séu sterk. Og í þriðja lagi á siðferðilegum þáttum. Hvaða grunngildi viljum við í samfélaginu? Ef við ætlum að hafna meðferð, á hvaða grunni á það að vera?“ spyr Páll.

Ítarlegt viðtal við Pál Matthíasson birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.