Tap farveitunnar Lyft, sem leyfir notendum að bjóða skutlþjónustu í gegnum app án leigubílamælis, á öðrum ársfjórðungi nam nam 644 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 78,8 milljörðum íslenskra króna, sem er aukning um 260% frá sama tíma fyrir ári þegar tapið nam 178,9 milljónum dala.

Því má segja að tapið á tímabilinu apríl til júníloka sé nærri fjórfalt meira en fyrir ári. Þrátt fyrir það var tekjuaukningin meiri en greinendur væntu og tapið minna. Ef horft er á 1,8 milljarða dala tap ársins það sem af er ári er tapið ríflega fjórfalt, eða 430% af því sem það var á fyrri helmingi ársins í fyrra.

Á sama tíma hafa tekjur félagsins aukist mikið, eða úr 505 milljónum dala í 867,3 milljónir dala, eða um 72% á öðrum ársfjórðungi, en fyrir fyrri helming ársins er tekjuaukningin 83%.

Þessi næstvinsælasta farveita Bandaríkjanna, á eftir Uber, væntir þess að tekjur ársins nemi allt að 3,5 milljörðum dala, sem er matshækkun frá allt að 3,3 milljarða dala tekjumarkmiði. Félagið fór á markað í mars, og safnaði 2,3 milljörðum dala í hlutafjárútboð, en þangað til uppgjörið kom nú höfðu bréf félagsins lækkað um 15% frá útboðsgeningu.

Bréf félagsins hækkuðu á mörkuðum í gær um 2,71%, en fyrst eftir að uppgjörið var tilkynnt hækkuðu bréfin um allt að 13%, en lækkuðu síðan á ný. Hafa bréfin hækkað um 5,44% á eftirmarkaði og fæst hvert bréf þess nú á 63,57 krónur. Útboðsgengi bréfanna nam 72 dölum á hlut, sem var umfram upphaflega áætlað bil á milli 62 til 68 dali á hlut.