Breski tískumógúllinn Kevin Stanford hefur látið af störfum sem stjórnarformaður tískuvörukeðjunnar All Saints. Hann stofnaði keðjuna sjálfur árið 1994 en skv. frétt breska blaðsins Telegraph var hann rekinn sem stjórnarformaður eftir miklar deilur við eigendur keðjunnar.

All Saints og Kevin Stanford ættu að vera Íslendingum nokkuð kunn. Baugur eignaðist 40% hlut í keðjunni síðla árs 2006 og jók hlut sinn lítillega eftir það. Eftir hrun bankanna haustið 2008 og eftir gjaldþrot Baugs árið 2009 tóku skilanefndir Kaupþings og Glitnis yfir hlut Baugs í keðjunni.

Í maí í fyrra keyptu fjárfestingasjóðirnir Lion Capital og Goode Parners keðjuna af skilanefndunum. Kevin Standford átti þó áfram 15% hlut en hann hafði fengið sjóðina að borðinu til að kaupa verslunina aftur.

Brottrekstur hans kemur þó ekki á óvart eftir því sem fram kemur í Telegraph. Samskipti hans við Lyndon Lea, stjórnarformann Lion Capital, hafa að sögn blaðsins verið stirrð og um síðustu jól var Stanford sendur í frí til að hægt væri að leysa úr ágreiningi þeirra á milli.

Telegraph rifjar upp skrautlega sögu Standford en hann var sem kunnugt er giftur tískuhönnuðinum Karen Millen. Saman byggðu þau upp Karen Millen verslanirnar (sem Baugur eignaðist síðar) en síðan skildu þau árið 2001.

„Þá hófst annað ástarævintýri,“ segir í frétt Telegraph í lauslegri þýðingu.

„Í þetta sinn var að ekki með konu heldur landi – Íslandi og skuldadrifnum fjárfestum (e. debt-fuelled financiers).“

Telegraph rifjar upp viðskipti Standford við Kaupþing, sem hófust áður en hann hitti „fræga skulda fíkilinn“ Jón Ásgeir Jóhannesson, svo vitnað sé til orða blaðsins. Þá er rifjað upp að það hafi verið Stanford sem hefi kynnt Robert Tchenguiz fyrir Kaupþingsmönnum – sem hafi að lokum skilað því að Tchenguiz hefði lent í stórfelldri rannsókn bresku efnahagsbrotadeildar lögreglunnar.

Eftir að hafa selt Karen Millen til Baugs eignaðist Stanford (í samstarfi við Baug) eignarhaldsfélagið Mosaic sem síðan átti tískuvörukeðjurnar Principles, Shoe Studio, Warehouse, Oasis og hlut í  Karen Millen.

Sjá frétt Telegraph