IFS greining mælir með því að fjárfestar selji bréf sín í Marel. Þetta kemur fram í virðismati sem var gefið út á föstudag. Marel gaf út afkomuviðvörun á föstudagsmorgunn.

IFS segir í virðismatinu að tiltekt í ársreikningi fylgi oft forstjóraskiptum í fyrirtækjum þannig að fyrsta uppgjör eftir skipti hafi tilhneigingu til að vera lélegt. Því sé ef til vill. ekki ástæða til að bregðast mjög hart við því einu og sér. Hins vegar uppfærir IFS rekstarspá sína fyrir félagið eilítið niður á við, auk þess sem vaxtastig er hærra en í síðasta virðismati IFS í október og krónan sterkari, sem dregur úr virði þess í krónum talið.

Niðurstaða IFS er að sannvirði hlutar í Marel sé nú 0,71 evra eða 111,3 krónur og mælti IFS með sölu á hlutabréfunum. Gengi bréfa í Marel lækkaði um 3,33% á föstudaginn og var gengi bréfa í lok dags 128 krónur á hlut.