*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 14. maí 2013 12:35

Mæla með sölu á bréfum Icelandair

Greiningardeild Arion banka hefur hækkað virðismatsgengi á bréfum Icelandair en telur þau samt of hátt verðlögð.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Greiningardeild Arion banka mælir með sölu á bréfum Icelandair Group í nýju verðmati á fyrirtækinu sem kom út í gær. Verðmatsgengi í matinu er 11,0, en gengi bréfa Icelandair Group er nú um 12,9 og hefur hækkað um 0,6% það sem af er degi. Í gær lækkaði gengi fyrirtækisins hins vegar um 2,43%.

Þrátt fyrir allt hefur Arion banki samt hækkað virðismatsgengi Icelandair, en í febrúar taldi greiningardeildin að gengið ætti að vera í kringum 10,6. Farið er fögrum orðum um félagið sem fjárfestingarkost í verðmatinu og er því ljóst að greiningardeildin hefur trú á félaginu, en telur það of hátt verðlagt.

Í matinu segir: „Icelandair Group er í lykilhlutverki þegar kemur að vexti ferðaþjónustu á Íslandi og flugsamgöngum í gegnum Ísland. Icelandair Group starfar í sveiflukenndum iðnaði en hefur sýnt mikla þrautseigju við erfiðar ytri aðstæður. Það á t.d. við um síðustu þrjú ár þar sem Icelandair hefur aukið tekjur sínar og greitt niður skuldir á meðan mörg önnur alþjóðleg flugfélög hafa barist í bökkum. Fjárhagsstaða félagsins er í dag sterk og tekjur eru að stórum hluta í erlendri mynt sem ætti að teljast eftirsóknarvert á Íslandi í dag. Aukið framboð stóru flugfélaganna á flugleiðinni yfir Atlantshafið getur þýtt minni vöxt.

Flugrekstur er í grunninn sveiflukenndur bransi þar sem aukið framboð samkeppnisaðila er versti óvinurinn. Aðrir áhættuþættir eru þróun olíuverðs og svo er auðvitað alltaf óvissa varðandi ytri skelli eins og t.d. náttúruhamfarir sem geta leitt af sér mikinn samdrátt.“