Kaupmáttur launa hefur farið batnandi á síðustu árum hér á landi en samkvæmt nýjustu gögnum Hagstofunnar hefur hann vaxið um 4,3% það sem af er þessu ári. Sé litið til kaupmáttarvísitölu Hagstofunnar má sjá að hún er farin að nálgast svipað stig og á árunum 2007 til 2008.

Samkvæmt Viðari Ingasyni, hagfræðingi VR, gefur kaupmáttarvísitala Hagstofunnar hins vegar ekki nógu skýra mynd af heildarþróun kaupmáttar hér á landi. Ástæðan er í grófum dráttum sú að vísitala Hagstofunnar er reiknuð út frá vísitölu launa ásamt vísitölu neysluverðs. Vísitala launa tekur aðeins tillit til reglulegra launa en þar er ekki tekið tillit til uppmælinga, ákvæðisgreiðslna, hlunninda eða annarra óreglulegra greiðslna. Til að gefa skýrari mynd af kaupmáttarþróun á Íslandi hefur VR því ákveðið að útbúa sérstaka kaupmáttarvísitölu unna úr gögnum frá félagsmönnum stéttarfélagsins og Ríkisskattstjóra.

Bætir miklu við útgáfu Hagstofunnar

„Þegar ég var að byrja að vinna að þessari vísitölu í sumar gerði ég óformlega könnun á meðal vina og ættingja og spurði þau hvort þau vissu hvað kaupmáttur launa væri,“ segir Viðar. „Flestir vissu það en þegar ég spurði þau hvernig þau myndu túlka það ef kaupmáttur myndi aukast um 5% þá sögðu flestir að það þýddi að þau gætu keypt 5% meira fyrir launin sem þau fengu útborgað. Fólk hefur ekki tilfinningu fyrir laununum sínum fyrir skatt, sem Hagstofan tekur tillit til, heldur því sem það sér í netbankanum sínum fyrsta hvers mánaðar. Vísitala VR sýnir í raun kaupmátt þess sem verður eftir í launaumslaginu,“ segir Viðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .