Samningaviðræður ríkis og lækna mættu ganga betur. Þetta segja formenn samninganefndar ríkis og Læknafélags Íslands að því er segir á fréttavef RÚV. Samkvæmt mbl.is steytir enn á stærstu samningsatriðunum , launum og vinnufyrirkomulagi.

Á samningafundi í dag hafi þó miðað lítillega áfram. „En það hefur ekki gengið kannski alveg eins vel og við myndum óska," er haft eftir Gunnari Björnssyni formanni samninganefndar ríkisins. Eitthvað hafi miðað í því að ná sameiginlegum skilningi um hvar helsti ágreiningur samningsaðila liggi.

„Það er þrýstingur frá mínum félögum að gera samning sem heldur fólki í landinu og gerir kleift að manna læknastöður. Það mætti ganga betur," segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélags Íslands.