Fyrirtaka í skaðabótamáli Björgólfs Thors Björgólfssonar gegn Róberti Wessman mun fara fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Forsaga málsins er sú að Björgólfur stefndi Róberti og Árna Harðarsyni fyrir að hafa á ólögmætan hátt dregið sér fjórar milljónir evra í eigin þágu og skapað honum fjártjóni sem samsvarar helmingi af þeirri fjárhæð, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í lok síðasta sumars.

Róbert og Árni sendu þá frá sér yfirlýsingu þar sem þeir vísuðu málatilbúnaði Björgólfs til föðurhúsanna og sögðu stefnuna „tilefnislausa“ auk þess sem hún ætti „enga stoð í raunveruleikanum“.

Í stefnu Björgólfs er málavöxtum lýst þannig að forstöðumenn Salt Investments hafi fært fjórar milljónir evra sem voru í eigu Mainsee 516 af reikningi Actavis, sem hafði fjármunina í vörslu, inn á reikning Salt Investments, án samráðs eða samþykkis stjórnar eða eigenda Mainsee 516.

Þeir Róbert og Árni hafi síðan nýtt fjármunina í eigin þágu og á sama tíma komið fjármununum frá því að vera fullnustaðir af Glitni banka, sem hafi lánað Mainsee 516 peningana til kaupa á lager af lyfjum. Björgólfur hafi þannig orðið fyrir fjártjóni vegna þess að hann hafði undirgengist sjálfskuldaraábyrgð ásamt Róberti og þurft að standa skil á hærri fjárhæð en ella, ef peningarnir hefðu ekki verið teknir „traustataki" af Róberti eins og segir í stefnunni.