Dómari í Aurum-málinu vill ekki fresta málinu á meðan þau mál sem tengjast Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, eru til rannsóknar og meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara. Lárus lagði fram þá kröfu við þingfestingu málsins í byrjun mánaðar að málin gegn honum fyrir dómstólum verði tekin saman í eitt þegar sérstakur saksóknari hefur lokið þeim. Lárus tengist tólf málum sem eru til rannsóknar hjá embættinu.

Í úrskurði dómara í morgun sagði m.a. að þótt taka megi undir með verjanda Lárusar að hann hafi hagsmuni af því að fá botn í sín mál í heild þá sé ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að fresta því.

„Við sjáum ekki betur en að dómarinn sýni málsstaðnum ákveðna samúð,“ segir Óttar Pálsson, verjandi Lárusar í samtali við vb.is.

Milliþinghald verður í málinu 11. febrúar en þar munu verjendur þeirra fjögurra sem ákærðir eru í Aurum-málinu greina frá því hvort þeir vilji ráðast í frekari gagnaöflun og hvort þeir þurfi frekari frest til að skila greinagerð í málinu.

Aurum-málið snýst um það að Glitnis lánaði félaginu FS38 sex milljarða króna til kaupa á hlut Fons, félags Pálma Haraldssonar, í félaginu Aurum Holding í júlí árið 2008. Félagið hélt utan um eignarhald á bresku skartgripakeðjunum Goldsmiths og Martin & Webb. Af milljörðunum sex fengu þeir Pálmi og Jón Ásgeir Jóhannesson sinn hvorn milljarðinn. Matsmenn í málinu telja að virði hlutar Fons í Aurum Holding hafi numið 464 milljónum króna þegar viðskiptin áttu sér stað og lán Glitnis því verið 13-falt hærra en matsverðið.

Þeir fjórir sem ákærðir eru í málinu vegna gruns um umboðssvik eru auk Lárusar þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og þeir Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson sem voru starfsmenn Glitnis.