Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms þess efnis að vísa frá dómi máli Landsbankans fallna á hendur Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrverandi bankastjóra bankans, vegna vanreifunar málsins.

Málið snerist um 100 milljóna króna framlag Landsbankans í séreignalífeyrissjóð Halldórs skömmu fyrir hrun haustið 2008. Hæstiréttur fellst á það með dómara Héraðsdóms að ekki komi fram í stefnu á hvaða atriðum stefnandi hyggist byggja í málinu og því sé stefnan vanreifuð. Þrotabú Landsbankans var dæmt til þess að greiða málskostnað Halldórs.