Samkvæmt fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands verður undirritaður samningur milli bankans og Seðlabanka Kína á morgun klukkan tíu mínútur yfir níu. Mun aðstoðarseðlabankastjóri Kína undirrita samninginn fyrir hönd síns banka en Már Guðmundsson fyrir hönd Seðlabanka Íslands.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri og upplýsingafulltrúi á skrifstofu bankastjóra, vildi ekki gefa frekari upplýsingar um hvers konar samning var að ræða. Ekki yrði greint frá innihaldi samningsins fyrr en á morgun.

Í annarri tilkynningu frá Urði Gunnarsdóttur, fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðuneytisins, segir að í fyrramáli verði „undirritaðir samningar og viljayfirlýsingar við Seðlabanka Íslands, Landsvirkjun og Enex Kína/Geysi Green Energy í utanríkisráðuneytinu." Þá kemur fram að viðkomandi stofnanir eða fyrirtæki veiti frekari upplýsingar.