Óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum er meðal þess sem hafði áhrif á þá ákvörðun Seðlabankans að hækka vexti bankans um 0,25%.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi nú í morgun að peningastefnunefndin gerði ekki endilega ráð fyrir verðbólguhækkun á Íslandi ef allt færi á versta veg. „Það er svo margt sem getur gerst,“ sagði Már. „Vandinn gæti leysts en það gæti líka orðið þróun sem sendi evrusvæðið í djúpstæða kreppu. Ef svo fer þá gæti verðbólga á Íslandi alveg eins farið upp eins og niður. En hún mun ekki rjúka upp nema gengið hrapi. En þar erum við varin af höftunum og heimamiðuðu bankakerfi.“

Már lagði jafnframt áherslu á að peningastefnan væri sveigjanleg og ef kæmi til óvæntra áfalla í Evrópu væri auðvelt að bregðast við. Hvað gjaldeyrisforðann varðar sagði Már bankann sífellt framkvæma á honum áhættumat. „Við viljum taka ákvarðanir sem gera okkur öruggari, hvað svo sem gerist. Innistæður okkar í viðskiptabönkum eru í lágmarki. Færi svo að evrusvæðið losnaðiupp mætti gera ráð fyrir gengisfalli heimamyntanna sem væri bara gott fyrir okkur.“