Marel Food Systems hefur efnt til hlutfjárútboðs meðal fagfjárfesta í þeim tilgangi að styrkja lausafjárstöðu félagsins.

Þetta kom fram í Hagsjá, nýju vefriti Hagfræðideildar Landsbankans í gær en Marel hyggst bjóða til sölu 20-35 milljónir nýrra hluta og er stefnt að því að selja hlutina á verðbilinu 54-60 krónur á hvern hlut.

Fram kemur í Hagsjá að miðað við þær forsendur gæti félagið því aukið lausafjárstöðu sína um 1,1 - 2 milljarða króna verði hlutirnir seldir á miðju verðbilinu (57 kr./hlut).

Lágmarksáskrift fyrir kaupunum er 5 milljónir króna og stendur sölutímabilið til föstudagsins 5. júní nk. Í lok sölutímabils mun stjórn Marels ákveða stærð útboðs, útboðsverð og úthlutun áskrifta og verður öllum áskriftum úthlutað einu og sama útboðsverði. Ennfremur áskilur stjórn Marel sér að taka eða hafna hvaða tilboðum sem hún kýs að hluta eða öllu leyti.

Í kynningu félagsins vegna útboðsins kemur fram að það hafi náð mikilvægum vörðusteinum síðastliðnar viku og má þar nefna fjármögnun upp á 116 milljónir evra, lokun afleiðusamninga og sölu á eignum upp á 37,5 milljónir evra.