Í upphafi vikunnar keypti Marel eigin hluti fyrir 885,5 milljónir króna, en kaupin voru gerð til að uppfylla kaupréttarsamninga við lykilstarfsmenn fyrirtækisins. Í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu kemur fram að samningarnir kveði á um rétt þeirra til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á genginu 86,3 krónur á hlut, en kaupgengið á mánudag hafi verið 126,5 krónur á hlut.

Starfsmennirnir geti hins vegar ekki nýtt samningana fyrr en í maí á næsta ári og megi því líta á kaup fyrirtækisins á bréfunum núna sem merki um að stjórnin búist við því að gengið eigi enn eftir að hækka á næstu misserum.

Því borgi sig fyrir fyrirtækið að kaupa bréfin núna á genginu 126,5 krónur í stað þess að bíða fram í maí á næsta ári og þurfa þá jafnvel að kaupa þau á hærra gengi.