Marel hefur samið við skiptastjóra danska fyrirtækisins Carnitech um kaup á framleiðslu kjötblöndunar- og hökkunarvéla Carnitech fyrir um 1,5 milljónir evra, jafnvirði rúmra 240 milljóna króna. Carnitech varð gjaldþrota 21. júní síðastliðinin. Fram kemur í tilkynningu frá Marel að þrátt fyrir að viðskiptin séu ekki stór þá falli þessi hluti af starfsemi Carnitech vel að stefnu Marel og styðji við sterka markaðsstöðu félagsins.

Töpuðu á Carnitech

Marel átti Carnitech á árum áður. Reksturinn þótti ekki falla undir kjarnastarfsemi Marel og var reksturinn í Danmörku seldur til iðnsamsteypunnar American Industrial Acquisition Corporation (AIAC) árið 2010. Í tengslum við söluna bókfærði Marel átta milljóna evra tap, um 1,4 milljarða á sínum tíma, fyrir skatt vegna afskrifta viðskiptavildar og endurmetinna eigna.

Í tilkynningu frá Marel nú segir að kjötblöndunar- og hökkunarlínur Carnitech falli vel að stefnu Marel sem er að vera leiðandi á þeim mörkuðum sem félagið starfar á – í  fiski, kjöti, kjúklingi og frekari vinnslu.

Í tilkynningu frá Marel er haft eftir Sigsteini Grétarssyni, aðstoðarforstjóra Marel, að fyrirtækið þekki starfsemi Carnitech frá þeim tíma sem félagið var í eigu Marel. „Þar er til staðar þekking og hæfni sem mun gera Marel kleift að þjónusta viðskiptavini sína enn betur og bjóða þeim heildarlausnir til matvælavinnslu,” segir hann.

Með því að bæta við kjötblöndunar- og hökkunarlínum styrkist vöruframboð Marel fyrir kjötvinnslu og frekari vinnslu þar sem Carnitech var öflugur aðili í framleiðslu og sölu á slíkum tækjabúnaði. Samhliða viðskiptunum mun Marel bjóða nokkrum starfsmönnum Carnitech störf hjá Marel eða sem samsvarar þeim hluta starfseminnar sem flyst til Marel.