Breska blaðið The Daily Telegraph hefur spáð 4% verðfalli á fasteignamarkaði í Bretlandi á árinu 2008, en það yrði jafnframt í fyrsta sinn í 15 ár sem slíkt gerðist. Rannsókn blaðsins sýnir að breskur fasteignamarkaður hafi náð því að komast á hættulegt stig í árslok 2007 og framundan sé verðfall sem kunni að vara næstu árin. Fleiri taka í svipaðan streng eins og sérfræðingur Morgan Stanley sem spáir 10% verðfalli.

Í helmingi af skýrslum 8 stofnana sem fylgjast með fasteignaverðlagi í Bretlandi var greint frá verðfalli meðalverðs í desembermánuði og það sem af er janúar. Mest mældist verðfallið 3,2% á mánaðar tímabili samkvæmt tölum Rightmove House Price Index frá 17. desember. Ef litið er á síðustu 12 mánuði er þó um að ræða hækkun hjá öllum aðilum á bilinu 4,8 til 9,10%.

Margir hafa spáð verðlækkunum

Í spám sem gerðar voru hjá fjölda matsfyrirtækja í Bretlandi á tímabilinu frá ágúst til desember 2007 eru fjórar sem töldu áframhaldandi hækkun framundan upp á 1% til 3%. Fimm aðilar töldu að verðið myndi standa í stað en 9 fyrirtæki og stofnanir spáðu verðlækkunum. Þar á meðal var David Miles einn helsti sérfræðingur Morgan Stanley í fasteignamálum í Bretlandi sem spáði því í desember síðastliðnum að verðfallið á árinu 2008 yrði 10%. Hann segir breska fasteignamarkaðinn reyndar á barmi met-verðhruns.

Svartsýnasta spáin kom þó frá Housepricecrash.co.uk í september. Stóð vefsíðan þar sannarlega undir nafni þegar hún spáði 35% verðhruni árunum 2008 til 2012. Það er svipað eða meira verðhrun en varð á breska markaðnum eftir 1990. MarketOracle.co.uk spáði því í ágúst 2007 að verðfallið á árinu 2007 til 2009 yrði 15%, en aðrir spá 5% til 12% verðlækkunum á árunum 2008 og 2009.

Viðvörunarbjöllur í gang

Í fréttinni á vefsíðu The Daily Telegraph er sagt að rannsókn sem gerð var fyrir  blaðið muni kveikja á aðvörunarbjöllum um allt Bretland. Húseigendur eigi þegar við vanda að glíma vegna hækkandi vaxta, hærra matvælaverðs, hærra orkuverðs og vaxandi skatta. Þá séu líkur til að nýbyrjað ár verði í besta falli slakasta ár síðan í byrjun tíunda áratugarins eða síðan á "Svarta miðvikudeginum" (Black Wednesday) árið 1992.

Greint er frá því að nýjustu tölur bæði frá Halifax og frá Nationwide sýni að fasteignaverð hafi tekið að falla á síðustu mánuðum vegna samspil hás fasteignaverðs, og aukinna fjárhagsbirgða sem hafi gert fjölskyldum erfitt um vik að fjármagna sig. Fasteignaverð sem vaxið hefur hraðar en tekjur undanfarin misseri og ár er nú á ný að falla og nálgast þau mörk að verða viðráðanlegt með tilliti til tekna heimilanna.

Diana Choyleva hjá Lombard Street Research segir í viðtali við blaðið að fasteignaverð sé komið á hættumörk, en of snemmt sé þó að segja til um hvað gerist næst og hvort kreppan verði eins slæm eða jafnvel verri en á tíunda áratugnum. Hún segir að stofnunin geri ráð fyrir þriggja til fjögurra prósenta verðlækkun og telur hún að áhrifin verði  mest í London. Þar muni 4% verðlækkun 200.000 punda íbúðar þýða 8.000 punda tap fyrir húseigandann.

David Owen yfirmaður hjá Dresner Kleinwort segir að meðalverð fasteigna í Bretlandi hafi aðeins fjórum sinnum frá stríðslokum náð því að vera hærra en sjöfaldar ráðstöfunartekjur heimilanna. Það hafi verið árin 1948, 1979, 1988 og 2007. Í öllum þessum tilvikum hafi fasteignaverð fallið í kjölfarið um 30% að teknu tilliti til verðbólgu.

Heimild: Viðskiptablaðið.