Gengi bréfa farsímaframleiðandans Research In Motion, sem framleiðir Blackberry farsímana, hefur lækkað töluvert í dag og fór markaðsvirði fyrirtækisins um tíma undir bókfært virði þess. Er það til marks um erfiða stöðu þess, en fyrirtækið hefur verið að tapa markaðshlutdeild til iPhone og Android farsíma, átta lykilstarfsmenn hafa yfirgefið RIM á árinu og í þrjá daga í október lá tölvupóstþjónusta fyrirtækisins niðri.

Það að markaðsvirði fer undir bókfært virði fyrirtækisins þýðir að tæknilega geti það borgað sig fyrir fjársterkan aðila að kaupa fyrirtækið á markaði, taka það í sundur og selja eignir þess. Gengi bréfa RIM hækkaði hins vegar aftur og er markaðsvirðið því komið yfir bókfært virði félagsins á ný, en hlutfall markaðsvirðis og bókfærðs virðis RIM er ennþá mjög nærri 1,01.