Greining Íslandsbanka segir hinn stækkandi hlutabréfamarkað hér á landi vera mun stöðugri en þann sem var fyrir efnahagshrunið 2008. Þá sé ákveðin heilbrigðismerki að sjá í því að félögin greiði arð fremur en að leita að „misheppilegum fjárfestingartækifærum“. Hins vegar verði tíminn að leiða í ljós hvort breyting verði þar á við afnám hafta.

„Fyrirfram bjuggust flestir við því að stækkandi hlutabréfamarkaður hér á landi myndi skila aukinni veltu á hlutabréfamarkaði. Það hefur að vissu marki gerst en ekki til samræmis við stækkun markaðarins. Ef litið eru til þriggja fyrstu mánaða þessa árs og sama tímabils tveggja undangenginna ára má sjá að hlutfallsleg velta dregst saman. Velta í krónutölu hefur þó aukist alla mánuði að janúar undanskildum,“ segir í frétt greiningardeildarinnar.

Hins vegar komui minnkun á hlutfallslegri veltu ekki á óvart. Þau félög sem hafi verið nýskráð á árinu hafi að töluverðu leiti verið komin í nokkuð endanlegt eignarhald og því lítill veltuþrýstingur af þeirra hálfu.

„Eins og við höfum áður sagt er hlutabréfamarkaður nú ólíkur þeim markaði er var hér fyrir hrun. Helsta breytingin er sú að meiri hluti þeirra félaga sem skráð eru á markað eru að vaxa lítið og ekki í útrás. Þá eru skráð innlend félög því sem næst öll arðgreiðslufélög sem greiða töluverðan hluta hagnaðar síns út í formi arð,“ segir greiningardeildin.

Þá séu spákaupmenn minna sýnilegir á innlendum hlutabréfamarkaði sem bendi til þess að fjárfestar kaupi hlutabréf meira en langtímafjárfestingu sem sé raunar í takt við eðli eignarformsins. Í því samhengi sé þó eðlilegt að hafa í huga að háar arðgreiðslur sumra félaga á markaði séu liður í því að ná fram heppilegri fjármagnsskipan þeirra og eðlilega muni félög ekki greiða langt umfram 100% af uppsöfnuðum hagnaði í mörg ár.

Lesa má fréttina í heild sinni hér.