Hlutabréfamarkaðir lækkuðu nokkuð í Bandaríkjunum í dag en bæði Dow Jones og S&P 500 vísitölurnar náðu í dag 12 ára lágmarki.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar er helsta ástæðan fyrir lækkunum dagsins lítil trú fjárfesta á frekari innspýtingu fjármangs til handa fjármálafyrirtækjum. Þannig hefur Bloomberg eftir viðmælendum sínum að slík framlengi aðeins þeirri efnahagskrísu sem nú ríkir.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 3,7%, Dow Jones um 3,4% og S&P 500 um 3,5% en sem fyrr segir hafa þær síðarnefndu ekki verið lægri í um 12 ár.

Af helstu geirum og fyrirtækjum er það að frétta að tölvurisarnir Hewlett-Packard og Intel lækkuðu um 4,6% hvor eftir að Morgan Stanley birti skýrslu í morgun þar sem greint var frá því að tækni- og hugbúnaðarfyrirtæki væru hvað mest viðkvæm fyrir frekari samdrætti í hagkerfinu. Í kjölfarið lækkuðu önnur sambærileg félög, t.d. Microsoft, Apple og Dell.

Fjármálafyrirtækjum gekk þó sæmilega í dag en Bank of America hækkaði um 9,5% og Citigroup um 19%. Það kann að vekja furðu þar sem fjármálafyrirtæki vega oftast þungt í hlutabréfavísitölum og miðað við lækkanir dagsins má segja að það sé nokkuð óvenjulegt að vísitölurnar lækki jafn mikið án þess að fjármálafyrirtæki leiðir þær lækkanir.

Í dag hins vegar lækkuðu allir aðrir geirar nokkuð mikið og segir Bloomberg fréttaveitan að þrátt fyrir að yfirvöld dæli frekari fjármagni inn í fjármálafyrirtækin séu önnur fyrirtæki enn í nokkurri hættu og staða þeirra óljós. Það kann ekki að breytast þó svo að frekari stoðum verði rennt undir fjármálafyrirtækin.

Hráolíuverð hélt áfram að lækka en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 38 dali og hafði þá lækkað um 5,1% frá opnun markaða.