Staða markaðsskuldabréfa í lok janúar nam 1.529 milljörðum króna og hækkaði um 11,8 milljarða í mánuðinum, samanborið við hækkun upp 72,7 milljarða í mánuðinum á undan.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans en staða markaðsskuldabréfa nam á sama tíma í fyrra tæpum  1.513 milljörðum króna á sama tíma í fyrra, og hafði þá lækkað um tæpa 355 milljarða frá því í október 2008 vegna bankahrunsins.

Sem fyrr hækkuðu ríkisbréf mest í mánuðinum, eða um tæpa 11 milljarða, og nam staða þeirra í lok janúar tæpum 354 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam staða ríkisbréfa um 235 milljörðum króna.

Hins vegar lækkuðu skráð bréf atvinnufyrirtækja um 2 milljarða og var staða þeirra í lok janúar um 202,7 milljarðar. Til samanburðar nam staða þeirra rúmlega 335 milljörðum króna í upphafi síðasta árs en hæst fóru þau í 349 milljarða í apríl síðastliðnum en hafa síðan þá lækkað jafnt og þétt.

Íbúðabréf hækkuðu um 6,3 milljarða í janúar og var staða þeirra í lok mánaðarins rúml. 709 milljarðar króna, samanborið við rúma 650 milljarða á sama tíma í fyrra.

Markaðsvíxlar hækkuðu lítillega í janúar, eða um tæpa 4,2 milljarða króna eftir að hafa hækkað um 13,2 milljarða á milli mánaða í desember. Á sama tíma í fyrra nam staða markaðsvíxla um 102 milljörðum króna.

Hlutabréf lækka

Þá lækkuðu hlutabréf sem skráð eru í Kauphöllinni um rúma 8,4 milljarða eftir að hafa hækkað um 20 milljarða í desember. Staða skráðra hlutabréfa nam þannig um 199,5 milljörðum króna í lok janúar samanborið við rúma 217 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Þess má geta að staða skráðra hlutabréfa hefur lækkað um 1.127 milljarða króna frá því í september 2008 og um 2.000 milljarða frá því í janúar 2008 , eða á sl. tveimur árum.