Nýverið var undirritaður samningur á milli Háskólans í Reykjavík, Kauphallar Íslands og Mens Mentis sem veitir nemendum í framhaldsnámi við vðskiptadeild HR aðgang að upplýsingum af íslenskum fjármálamarkaði í rauntíma og án endurgjalds. Samningurinn nær til um 150 nemenda í MBA námi og í meistaranámi í fjármálum (MSIM).

Upplýsingarnar berast nemendum í gegnum Markaðsvaktina, sem er nýr hugbúnaður frá Mens Mentis, sem veitir upplýsingar frá Kauphöll Íslands yfir Internetið. Auk þess að geta fylgst með viðskiptum, tilboðum og fréttum, geta nemendur við HR skoðað og greint söguleg gögn, skoðað ársreikninga og kennitölur félaga, gert ýmiskonar samanburð á fjárfestingakostum og margt fleira. Þess má geta að þróun á Markaðsvaktinni hófst sem hluti af lokaverkefni nemenda við tölvunarfræðideild HR í samstarfi við Mens Mentis.

"Það er frábært tækifæri fyrir nemendur okkar að geta haft sömu sýn á íslenskan fjármálamarkað og verðbréfamiðlarar og aðrir fagmenn," segir Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður MBA náms við HR. "Þar að auki styrkir þetta samkeppnisstöðu Háskólans í Reykjavík enn frekar."

"Það er mikilvægt fyrir nemendur að hafa kynnst markaðnum og þeim upplýsingakerfum sem markaðsaðilum býðst að nota, enda eiga margir þeirra eftir að starfa sem atvinnumenn á fjármálamarkaði í framtíðinni." segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands. "Því er sjálfsagt að fella niður upplýsingagjöld Kauphallarinnar þegar nemendur eiga í hlut."