Samkvæmt úttekt Thomson Financial/Datastream er markaðsverðmæti verðbréfa í Evrópu í fyrsta skipti síðan frá upphafi fyrri heimsstyrjaldar orðið hærra en markaðsvirði bandarískra verðbréfa. Markaðsverðmæti helstu verðbréfa í helstu kauphöllum Evrópu var 15,720 billjónir Bandaríkjadala við lok síðustu viku samkvæmt úttekt Thomson Financial. Á sama tíma var markaðsverðmæti bandarískra verðbréfa 15,640 billjónir dala. Dagblaðið Financial Times hefur eftir Mike Staunton, sem er sérfræðingur í sögu hlutabréfamarkaða og sagnfræðingur við London Business School, að það hafi ekki gerst frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar að markaðsverðmæti evrópskra verðbréfa reyndist hærra en þeirra bandarísku. Fyrri heimsstyrjöldin var að miklu leyti fjármögnuð af Bandaríkjamönnum og varð ófriðurinn meðal annars til þess að tryggja yfirburði Bandaríkjanna á alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Ástæðan fyrir því að evrópsk verðbréf hafa saxað á forskot hinna bandarísku er meðal annars rakin til styrkingar evru gagnvart Bandaríkjadal undanfarin misseri auk vaxtar í Rússlandi og Austur-Evrópu. Rússnesk fyrirtæki og önnur fyrirtæki sem starfa á svokölluðum þróunarmörkuðum hafa í auknum mæli kosið að skrá hlutabréf sín í Evrópu og hefur Dow Jones-fréttastofan eftir sérfræðingum að kauphöllin í London hafi notið sérstaklega góðs af þessari þróun þar sem stjórnendur fyrirtækja telja regluverkið þar minna íþyngjandi en í Bandaríkjunum.

Þessar tölur hljóta að teljast til verulegra tíðinda sökum mikilvægis bandaríska markaðarins fyrir alþjóðahagkerfum. Ekki eru þó allir sáttir við þær forsendur sem úttekt Thomson Financial/Datastream byggir á. Í dálknum The Short Wiew, sem birtist daglega í Financial Times, bendir John Authers á að skilgreining aðstandenda úttektarinnar á Evrópu kunni að koma mörgum spánskt fyrir sjónir. Fæstir líti á Síberíu og Anatólíu sem hluta af Evrópu og með því að teygja skilgreininguna á Evrópu handan Úralfjalla og Hellusunds endurspegli markaðsverðmæti úttektarinnar allan orkuauð Rússlands og hið fjölmenna og ört vaxandi hagkerfi Tyrklands. Einnig bendir hann á að heimsvísitölur eins og MSCI sýni að bandaríski markaðurinn sé 37% hærri en sá evrópski.

Hinsvegar bendir Auther á í dálki sínum að úttekt Thomson Financial/Datastream endurspegli þá staðreynd að meiri vöxtur sé hagkerfum Evrópu en því bandaríska. Auk þess telur hann að breyting hafi átt sér stað meðal evrópskra fyrirtækja sem sjáist meðal annars á því að arðsemi þeirra miðað við bandarísk fyrirtæki hafi aukist.