Seðlabanki Íslands hefur lokið við stöðugleikamat vegna undanþágubeiðna slitabúa gömlu bankanna. Bjarni Benediktsson tilkynnti í viðtali við RÚV í dag að mat Seðlabanka Íslands verði kynnt á blaðamannafundi á morgun.

Matið snýr að tillögum Gamla Landsbankans, Glitnis og Kaupþings um leiðir til að uppfylla skilyrði stöðugleikaframlags vegna afnáms gjaldeyrishafta.

Stöðugleikamatið var kynnt á ríkisstjórnarfundi fyrr í dag. Bjarni sagði að málið yrði undirbúið áfram í dag og kynnt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á morgun. Málið verður síðan kynnt fyrir þingflokkunum og gera má ráð fyrir blaðamannafundi um málið á morgun.