Bandaríska hamborgarakeðjan McDonalds mun síðar á þessu ári opna sinn fyrsta veitingastað í Víetnam, nánar tiltekið í Ho Chi Minh borg, sem áður hét Saigon. Innreið McDonalds í landið er til marks um það hvað Víetnam hefur opnast á undanförnum áratugum, en McDonalds er þó langt frá því að vera fyrsta vestræna stórfyrirtækið sem heldur inn á víetnamska markaðinn.

Keðjur eins og Starbucks, Subway, Burger King og KFC eru allar búnar að koma sér fyrir í landinu og fyrirtækin Coca-Cola og Pepsi hafa verið þar frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar.

Eins og venjan er hefur þarlent fyrirtæki fengið leyfi til að reka eigin staði undir nafni McDonalds og sérleyfishafinn er Henry Nguyen sem er tengdasonur víetnamska forsetans og leiðtoga kommúnistaflokksins, Truong Tan Sang.

Nguyen er þó enginn nýgræðingur í hamborgarageiranum því hann vann m.a. sem hamborgarakokkur á McDonalds stað í Bandaríkjunum á sínum yngri árum.