Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga girða ekki fyrir það að listi yfir þau fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda verði birtur. Þetta er niðurstaða Persónuverndar en bréf þessa efnis hefur verið sent Vinnumálastofnun (VMST).

Kallað hefur verið eftir því að umræddur listi verði birtur en sú leið hefur meðal annars verið farin í Noregi. Hlutabótunum var komið á til að viðhalda ráðningarsambandi milli starfsmanns og vinnuveitanda en það hefur vakið nokkra umræðu að vel stöndug fyrirtæki hafi fært sér leiðina í nyt. Ráðherrar í ríkisstjórninni hafa meðal annars kallað eftir því að listinn yrði birtur.

VMST taldi sér ekki heimilt að birta listann þar sem hann hefði að geyma persónuupplýsingar um þá starfsmenn sem voru settir í lækkað starfshlutfall. Óskaði stofnunin eftir áliti Persónuverndar vegna þessa og hvort persónuverndarlögin girtu fyrir það að listinn yrði birtur. Á það féllst Persónuvernd ekki en benti þó að í vissum tilfellum væri hægt að leiða persónuupplýsingar út úr birtum upplýsingum, til að mynda ef fáir starfsmenn starfa hjá fyrirtæki.

„Persónuvernd getur fallist á að með því að birta upplýsingar um fámenn fyrirtæki geti reynst auðveldara að leiða af þeim upplýsingum persónuupplýsingar um þá sem sækja um framangreindar bætur. Hins vegar er til þess að líta að tilgangurinn með því að gera umræddar upplýsingar aðgengilegar er að tryggja almannahagsmuni og stuðla að aðhaldi fyrir fyrirtæki. Að mati Persónuverndar er líklegt að sá tilgangur náist ekki fyllilega verði fyrirtæki með fáa starfsmenn undanskilin með öllu frá birtingunni eða ef ekki er birtur fjöldi þeirra starfsmanna sem þiggja [hlutabætur],“ segir í bréfi Persónuverndar til VMST.

Því virðist lítið girða fyrir það að umræddur listi verði birtur.