Meðan á sjómannaverkfallinu stóð voru ófáir sem lýstu yfir áhyggjum sínum vegna hagsmuna Íslendinga á erlendum fiskmörkuðum og óttuðust óafturkræfan skaða. Nú þegar samningar eru í höfn og bátarnir hafa aftur lagt á miðin er skoðun manna á meintu tjóni misjöfn og ljóst að tíminn einn mun leiða í ljós hvort og þá hve mikið það er í raun og veru.

Meiri afleiðingar en marga grunar

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, telur að afleiðingar verkfallsins á erlenda markaði verði meiri en marga grunar. „Hluti af gæðum er afhendingaröryggi og það er einfaldlega þannig að ef þú færð ekki vöruna sem þú ert vanur að fá í versluninni, eða ef hún kostar allt í einu miklu meira en áður, þá ferðu að velta fyrir þér annarri vöru. Ég veit t.d. til þess að menn hafa snúið sér að öðrum mörkuðum hvað varðar karfann og eru farnir að versla frá Afríku í meira magni. Það sama má segja um íslenska þorskinn sem hefur verið í samkeppni við þorsk frá Noregi. Íslenskur þorskur hefur lengst af verið dýrari en annar þorskur og undanfarna mánuði hafa aðrir fengið tækifæri til að koma inn á markaðinn með sinn þorsk á lægra verði, með sambærileg gæði og meira afhendingaröryggi og viðskiptavinirnir skipta þeim aðilum ekki svo glatt út.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.