Fjárfestingabankinn Merrill Lynch mun tilkynna um 6-8 milljarða dollara niðurfærslur á eignum í uppgjöri fyrsta fjórðungs þessa árs á morgun. Þetta hefur Wall Street Journal eftir heimildamanni sínum. Ef af þessu verður munu heildarafskriftir Merrill frá því í október nema 30 milljörðum dollara. Fjárfestingabankinn mun því skila tapi þrjá ársfjórðunga í röð, en það hefur aldrei gerst áður í 94 ára sögu bankans. Talsmenn Merrill Lynch neituðu að tjá sig um þessar getgátur, en uppgjörið verður birt á morgun.