Hrafnar Óðins, Huginn og Muninn, ræddu ýmislegt á síðum Viðskiptablaðsins á árinu. Hér fyrir neðan eru fimm vinsælustu pistlar þeirra á árinu 2015.

5. Neistaði á milli ræðumanna

Samtök atvinnulífsins héldu fund um gjaldeyrishöftin í maí en þar neistaði á milli fyrstu ræðumannanna tveggja, Heiðars Más Guðjónssonar og Ásgeirs Jónssonar. Heiðar fjallaði í erindi sínu m.a. um skýrslu, sem Ásgeir vann með Hersi Sigurgeirssyni um höftin, og sagði það sérstakt að í skýrslu um afnám hafta hefðu höftin sjálf gleymst. Þá sagði Heiðar að ekki gengi að fara nauðasamningsleiðina við afgreiðslu þrotabúa bankanna. Ásgeir svaraði fyrir sig og að þeir tveir hefðu verið saman í hagfræðinámi, en greinilega hefðu leiðir skilið að náminu loknu.

4. Hjól Veru Illugadóttur

Sagt var frá því þegar hjóli Veru Illugadóttur var stolið af bíræfnum þjófi en faðir Veru, Illugi Jökulsson, skrifaði Facebook færslu um þjófnaðinn þar sem m.a. stóð að hún hafi keypt sér hjólið fyrir nokkra tugi þúsunda sem hún aflaði með sinni eigin vinnu. Hrafnarnir veltu því fyrir sér hvort réttlæta mætti þjófnaðinn ef hjólinu hefði verið stolið í góðum tilgangi. Hvað ef þjófurinn þarf hjólið meira en Vera Illugadóttir? Hvað ef hún hefði átt tíu hjól?

3. Af hverju er starfsmönnum ekki frekar fækkað um 10%?

Huginn og muninn sögðu frá hugmyndum fjármála- og félagsmálaráðherra um að gera tilraun með styttri vinnuviku opinberra starfsmanna. Hrafnarnir veltu því fyrir sér að ef hægt er að vinna þá vinnu sem vinna þarf hjá opinberum stofnunum á 10% styttri tíma en nú er gert hvort ekki sé eðlilegra að nýta það svigrúm til að fækka starfsmönnum á viðkomandi stofnunum um 10%?

2. Hvetur Þorstein til að taka Más nafnið út

Athygli vakti þegar Heiðar Guðjónsson, sem áður hét Heiðar Már Guðjónsson, ákvað að fella Más millinafnið út. Var það vegna óánægju Heiðars við Seðlabankann og Seðlabankastjórann Má Guðmundsson. Öruggar heimildir hrafnanna hermdu að Heiðar hafi sent Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, skeyti og hvatt hann til að gera slíkt hið sama og taka Másnafnið út.

1. Verkfallið gæti snúist í höndum starfsmanna ÁTVR

Hrafnarnir sögðu frá verkfalli SFR í október og töldu það ólíklegt að það myndi renna ljúflega í landann þar sem vínbúðir ÁTVR lokuðu tímabundið. „Eins er líklegt að með þessu séu starfsmenn að skjóta sjálfan sig í fótinn, því fátt má telja líklegra til að auka stuðning við sölu áfengis í öðrum verslunum en að hefta svo freklega aðgengi Íslendinga að áfengi í aðdraganda helgar.“