*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 14. september 2021 18:25

Mesta hækkun fasteignaverðs í 15 ár

Fasteignaverð á heimsvísu hækkaði að meðaltali um 9,2% á ársgrunni. Ísland er í þrettánda sæti yfir mestu hækkun fasteignaverðs.

Ritstjórn
epa

Húsnæðisverð á heimsvísu hækkaði um 9,2% á ársgrunni í júní, sem er mesta hækkun sem mælst hefur frá árinu 2005, samkvæmt tölum ráðgjafafyrirtækisins Knight Frank sem ná til 55 landa.

Eitt af hverjum þremur löndum upplifðu yfir 10% árshækkun fasteignaverðs. Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins er þó bent á að fasteignaverð hefur hækkað talsvert meira í þróuðum ríkjum, eða um 12% að meðaltali, samanborið við 4,7% hjá helstu þróunarlöndunum heims.

Fasteignaverð lækkaði aðeins í tveimur löndum en það var í Indlandi og á Spáni. Fasteignaverð á Spáni lækkaði um nærri eitt prósent á ársgrunni og verð á Indlandi lækkuðu um hálft prósent.

Knight Frank bendir á að þrátt fyrir mikla verðhækkanir á þessum markaði þá eru merki um að eftirspurn sé að minnka. Umsóknir um húsnæðislán í Bandaríkjunum hafa fækkað og hlutfall heimila sem telur að nú sé góður tími til að kaupa mældist 28% í júní, það lægstaí áratug. Þá munu væntingar um stýrivaxtahækkanir líklegast draga úr eftirspurn til meðallangs tíma.

Aftur á móti er bent á að takmarkanir hafa nýlega verið hertar í Suðaustur-Asía, Nýja Sjálandi og Ástralíu sem gæti ýtt undir frekari hækkanir.  

Ísland situr í þrettándi sæti yfir mesta árshækkun fasteignaverðs á Íslandi en hún mældist 12,6% í júní, en stuðst er við tölur frá Hagstofunni. Tyrkland trónir á toppnum með 29% árshækkun fasteignaverðs. Þar á eftir kemur Nýja Sjáland með fjórðungs hækkun og Bandaríkin eru í þriðja sætinu með 18,6% hækkun.