Hagnaður Evrópska þróunarbankans ( EBRD) jókst um 60% á milli ára og nam 210 milljörðum króna á síðasta ári. Það sem liggur að baki miklum hagnaði bankans á síðasta ári er meðal annars sala hlutafjár í félögum sem bankinn hefur byggt upp sem minnihlutaeigandi í samstarfi við aðra fjárfesta.

Þá hefur bankinn náð miklum árangri í samstarfsverkefnum og mikill uppgangur hefur orðið á starfssvæði bankans. Ísland er meðal 61 hluthafa í bankanum en í framkvæmdastjórn bankans situr Íslendingurinn Baldur Pétursson.

Bankinn starfar aðallega í Austur-Evrópu og Mið-Asíu. Á síðasta ári var mörkuð ný fjárfestingarstefna til næstu fimm ára þar sem bankinn stefnir að því leggja í auknum mæli áherslur á fjárfestingar í Rússlandi, Úkraínu, Mið-Asíu, Kákasuslöndum, á vestanverðum Balkanskaga og Suðaustur-Evrópu.

EBRD tók þátt í 301 fjárfestingaverkefni á síðasta ári samanborið við 276 árið áður. Alls var fjárfest fyrir 440 milljarða króna, mest í Rússlandi. Verkefni tengd vistvænni orku voru sérstaklega áberandi á síðasta starfsári bankans.