Epic Games, framleiðandi hins gífurlega vinsæla tölvuleiks, Fortnite er metið á tæplega 15 milljarða dollara eftir fjárfestingu sem félagið fékk í síðustu viku. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal . Fyrirtækið greindi frá því í síðustu viku að nýir fjárfestar hefðu fest kaup á hlutuafé að andvirði 1,25 milljörðum dollara. Til samanburðar má nefna að Electronic Arts sem er skráð á hlutabréfamarkað og framleiðir meðal annars FIFA og Battlefield leikina er metið á tæplega 30 milljarða dollara.

Samkvæmt heimildum WSJ var þó einungis hluti þeirrar upphæðar hlutafjáraukning þar sem hluti af núverandi fjárfestum nýttu tækifærið og losuðu um fjárfestingu sína. Þrátt fyrir að Epic Games hafi ekki sagt nákvæmlega til um hverjir hinu nýju fjárfestar væru þá eru þeir samkvæmt fyrirtækinu einstaklingar sem eru framarlega á sviði keppnis tölvuleikja (e. competitive gaming).

Þrátt fyrir að Fornite leikurinn sé spilurum að kostnaðarlausu þá nema tekjur félagsins af leiknum sem kom út fyrir rúmu ári síðan rúmlega milljarði dollara. Koma þær að stærstu hluta frá svokölluðum smáfærslum (e. microtransactions). Það sem hefur þó vakið athygli við tekjur af sölu Fortnite til leikmanna er sú staðreynd að allt sem selt er veitir leikmönnum ekki forskot á aðra í leiknum. Er það annað en t.d. FIFA Ultimate Team þar sem leikmenn eru nánast neyddir til þess að eyða peningum ætli þeir sér að vera samkeppnishæfir.