Innstæðueigendur tóku 214 milljarða evra út úr bönkum á evrusvæðinu á undanförnum fimm mánuðum. Fjárhæðin samsvarar um 1,5% af heildarinnstæðum hjá bönkum á evrusvæðinu. Úttektir náðu nýjum hæðum í febrúar samkvæmt gögnum sem Seðlabanki Evrópu birti í gær.

Minnkandi innstæður hjá evrópskum bönkum, þróun sem byrjaði eftir að Seðlabanki Evrópu byrjaði að hækka vexti síðasta sumar, gefur til kynna að bankar hafa átt í erfiðleikum að laða að og halda í innstæðueigendur, jafnvel fyrir fall SVB og Signature Bank í Bandaríkjunum og yfirtöku UBS á Credit Suisse.

Innstæður banka á evrusvæðinu minnkuðu um 71,4 milljarða evra í febrúar, sem er mesti samdráttur frá því að mælingar hófust árið 1997. Þá minnkuðu innstæður heimila um 20,6 milljarða evra, sem er jafnframt mesta mánaðarlega lækkun frá því að mælingar á þessum lið hófust árið 2003.

Bankar á evrusvæðinu hafa verið hægir til að skila hærri vöxtum til innstæðueigenda, að því er segir í umfjöllun Financial Times. Fyrir vikið hafi margir flutt fjármuni yfir á bundna reikninga eða fjárfest beint í skuldabréfum banka.