Hugúnaðarrisinn Microsoft gagnrýnir Google harðlega fyrir að virða ekki lög um höfundarrétt á netinu. Í grein sem Thomas Rubin, lögfræðingur Microsoft, skrifar í breska blaðið Financial Times í gær, ásakar hann Google um að nýta sér bækur, tónlist, kvikmyndir og sjónvarpsþætti án þess að afla sér tilskilinna leyfa. Á meðan höfundar og útgefendur verka eiga í erfiðleikum með að mæta kostnaði, þá taki Google efni þeirra og græði milljarða Bandaríkjadala á því í gegnum auglýsingar - án þess að hafa svo mikið fyrir því að biðja um leyfi, segir Rubin.

Þessi ummæli Rubin koma á sama tíma og Google stendur frammi fyrir lagalegum þrýstingi frá ýmsum fjölmiðlafyrirtækjum sem hafa einnig gagnrýnt Google fyrir að leyfa notendum sínum að leita að bókum, kvikmyndum, sjónvarps- og fréttaþáttum. Bandaríska fjölmiðlafyrirtækið Viacom hefur meðal annars skipað Youtube, sem Google á, að fjarlægja um hundrað þúsund myndbönd af heimasíðu sinni, sem eru varin af höfundarréttarlögum.

Hópur útgefenda hefur nú þegar, með stuðningi Samtaka bandarískra útgefenda, hver fyrir sig lögsótt Google fyrir að búa til stafræn eintök af bókum sem það hefur fengið frá bókasöfnum og njóta höfundarréttarlaga, án þess að hafa fengið leyfi fyrir því. Rubin segir að þetta framferði Google brjóti kerfisbundið á höfundarréttarlögum og svipti hvort tveggja höfunda og útgefendur af hugsanlegum tekjum fyrir verk sín. Til lengri tíma litið mun þetta einnig grafa undan þeim hvata sem höfundar hafa af því að skapa ný verk.

Google segir hins vegar að það fari eftir öllum lögum; það sé ekki að gera neitt rangt með þessu þar sem það birti aðeins hluta af því efni sem varið er af höfundarréttarlögum og Google hefur ekki fengið leyfi útgefenda til að birta. Auk þess bendir internetfyrirtækið á að það fjarlægi tafarlaust bækur af vef sínum um leið og útgefendur setji sig í samband við Google og óski eftir því. Á síðasta ári námu auglýsingatekjur Google af öðrum internetsíðum um 3,3 milljörðum dollara, sem fyrirtækið segir að sýni fram á að það sé ekki rétt að halda því fram að það hagnýti sér aðeins efni annarra til að skapa tekjur.

Samúð Microsoft með málstað þeirra sem hafa hagsmuni af því að höfundarréttarlög séu virt er gerð í þeim tilgangi að aðgreina sig frá Google. Fyrirtækið sendi nýlega bréf til framkvæmdastjóra hjá stóru fjölmiðlasamsteypunum þar sem það bauðst til þess að starfa með þeim að því að útrýma sjóræningjaefni á Soapbox, sem er ný myndbandsþjónusta á MSN.