Hagnaður Microsoft á öðrum ársfjórðungi þessa árs, sem jafnframt er síðasti fjórðungur reikningsárs fyrirtækisins, var langt undir væntingum markaðsaðila og féll gengi hlutabréfa fyrirtækisins um nær 10% við opnun markaða í dag. Hagnaður fyrirtækisins í fjórðungnum nam tæpum milljörðum dala, eða um 0,59 dölum á hlut.

Samkvæmt frétt Bloomberg höfðu sérfræðingar gert ráð fyrir því að hagnaður á hlut yrði í kringum 0,75 dalir á hlut og urðu því margir fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna.

Fyrstu skref Microsoft í vélbúnaðargeiranum (ef horft er framhjá leikjatölvunni XBox) urðu fyrirtækinu dýrkeypt, en afskrifa þurfti 900 milljónir dala vegna lélegrar sölu á Surface spjaldtölvum. Þá hefur samdráttur í sölu á einkatölvum undanfarið ár komið Microsoft illa vegna þess hve sala á hugbúnaði fyrir einkatölvur skiptir fyrirtækið miklu máli.

Google skilaði einnig uppgjöri fyrir annan ársfjórðung þessa árs og olli það vonbrigðum, þótt munur væntinga og raunveruleika hafi verið mun minni en í tilviki Microsoft. Velta nam 11,1 milljörðum dala, en búist hafði verið við 11,3 milljarða veltu. Hagnaður á hlut nam 9,56 dölum, en gert hafði verið ráð fyrir 10,80 dala hagnaði á hlut. Gengi bréfa fyrirtækisins lækkaði um allt að 3,9% í dag.