Heimsmarkaðsverð á gulli hefur hækkað mikið í þessari viku. Í lok síðustu viku kostaði únsan af gulli 1428,4 dali en við lok markaða í gær kostaði hún 1458,9 dali. Það sem af er degi hefur gullverð síðan hækkað um rúma 12 dali og kostar únsan nú 1471,1 dal, sem er hækkun um rúm 0,8%. Gullverð hefur aldrei verið hærra, að nafnvirði, og hefur það hækkað um tæp 3% í vikunni.

Hækkandi gullverð speglar auknar áhyggjur fjárfesta af ástandi efnahagsmála í heiminum, m.a. vegna síhækkandi olíuverðs. Á óvissutímum leita fjárfestar jafnan í gull.