Töluverð velta var með skuldabréf í Kauphöllinni í dag og nam hún rúmum 21 milljarði króna.

Skuldabréfavísitala Gamma (GBI) hækkaði 0,4% og hefur þá hækkað um 1,7% á einni viku og 2,1% á einum mánuði.

Veltan í dag skiptist nokkuð jafnt á milli verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa. Þannig nam veltan með verðtryggð skuldabréf um 10,1 milljarði króna en velta með óverðtryggð skuldabréf um 11,2 milljörðum króna.

Verðtryggður hluti skuldabréfavísitölunnar (GAMMAi) hækkaði um 0,4% og hefur þá hækkað um 2,1% á einni viku. Óverðtryggði hlutinn (GAMMAxi) hækkaði um 0,3% og hefur þá hækkað um 0,9% á einni viku.

Til gaman má þó geta að GAMMAxi hefur nú hækkað um 3% á einum mánuði á meðan GAMMAi hefur hækkað um 1,8%.